top of page

Kennslufræðin

Nálgun mín við kennslu byggir að mestu leiti á vinnu minni með David L.Jones í New York síðan 2003.  Ég fékk það einstaka tækifæri að eyða hundruðum tíma í að sitja inni í tímum þegar hann er var kenna og læra að heyra hvert og eitt smáatriði í röddum. En það er ekki bara nóg að hlusta, við þurfum að vita hvernig á að taka á þeim vandamálum sem geta komið upp og hvernig á að vinna bót á þeim. Þekking á hvorutveggja verður að vera til staðar til að hægt sé að vinna með röddina svo vel sé. David er gífurlega opinn gagnvart öllu sem virkar og hefur hann sótt í viskubrunn margra kollega sinna og þeirra söngvara sem til hans koma. Auk þess að starfa með læknum og sérfræðingum á sviði rannsókna og talmeinafræði.

Egill David.jpg

Nálgun hans er það sem kallað hefur verið sænsk-ítalski skólinn.  Kennsluferill hans nær vel yfir 40 ár og það er mér sérstök gleði og ánægja að fá að njóta og kenna áfram það sem ég hef lært í gegnum árin.

"It is my personal pleasure to recommend Egill Palsson as a fine instructor of voice. I have heard the exceptional progress of his students and it is my privilege endorse him as a fine vocal instructor in Iceland."

David L. Jones / International Vocal Pedagogue

Hversvegna kennsla?

     Frá því að ég man eftir mér hefur tónlist og söngur alltaf verið hluti að því hver ég er, annaðhvort sem þáttakandi eða njótandi. Ég á sterkar minningar frá barnæsku þegar ég ásamt vinum mínum úr Laugarási tókum þátt í kórstarfi í Skálholtskirkju í Biskupstungum. Starfið var þá leitt af nýkomnum organista svæðisins, Hilmari Erni Agnarssyni. Hann, með sínum brennandi áhuga á tónlist og tónlistarsköpun vakti með mér einhvern alveg sérstakan áhuga á tónlist og tónlistarflutningi. Hann átti aragrúa af plötum og geisladiskum sem ég fékk lánað til að hlusta á, og þar var stór áhrifavaldur The Kings's Singers, sem með sínum óviðjafnanlega flutningi á tónlist allt frá Bítlunum til Palestrina kveikti eitthvað lítið bál í mér og vinum mínum sem stofnðum saman kvartett í kjölfarið og höfum við haldið hópinn alla tíð síðan og sungið saman þegar til þess gefst tækifæri.

     Ég stofnaði svo, áfram öðrum vinum mínum í grunnskóla, rokkhljómsveit þar sem ég spilaði á trommur, það átti vel við mig þar sem ég var afar feiminn og óframfærinn á þessum tíma og mér leið bara vel að vera í bakgrunni að slá taktinn. Í grunnskóla tók ég þátt í leiklistarstarfi að miklu leiti, og minnisstæðast er þáttaka mín í uppsetningu á leikverkinu "Þið munið hann Jörund" eftir Jónas Árnason, þar sem ég þurfti í fyrsta skipti að standa og syngja einsöng fyrir framan fullan sal af fólki.

     Hljómsveitin hélt sér úr grunnskóla yfir í Menntaskólann að Laugarvatni, og við spiluðum saman öll árin þar, auk þess sem ég tók þátt í öllu kórastarfi og leiklistarstarfi. Eftir á að hyggja veit ég ekki alveg afhverju ég gerði það, því ég hef alltaf verið nokkuð taugaóstyrkur þegar kemur að því að koma fram fyrir framan fólk, en það gerði ég nú samt. Aldrei var ég þó í aðalhlutverkum, ég er ekki viss um að ég hefði valdið því þó svo hefði verið á þeim tíma. Að lokum menntaskóla fluttist ég til Reykjavíkur þar sem ég gekk til liðs við kór Langholtskirkju, ég söng einnig með Hljómeyki, ásamt því að syngja áfram með vinum mínum í Laugaráskvartettinum. Á einhverjum tímapunkti ákvað ég að skella mér í nuddnám, ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á læknisfræði, virkni líkamans og líffærunum, og hugurinn stóð lengi í átt að því námi, en tungumál voru líka jafn áhugaverð á þessum tíma. Stærðfræði og eðlisfræði voru mér hinsvegar afar erfið og á endanum var það það sem réði úrslitum, og ég fór ekki þá leið sem ég hafði ætlað mér. Í gegnum nuddnámið fór ég að læra meira á sjálfan mig, við leituðum mikið inn á við, og notuðum innsæi og næmni til að vinna með öðru fólki. Það má eiginlega segja að í gegnum það nám fór ég að finna mig meira sem söngvari, og það varð úr að ég skráði mig í söngnám við Söngskólann í Reykjavík, þá 25 ára gamall,  hjá Ólöfu Kolbrúnun Harðardóttur. Ég hélt áfram í kórastarfi og var boðið að syngja með Kammerkór Langholtskirkju, þar kynntist ég upptökuferlinu, því við tókum upp einn geisladisk saman, auk þess að syngja inn á nokkra aðra diska með þekktum listamönnum. Samhliða námi við Söngskólann fann ég erlendan söngkennara, David L. Jones, því mig þyrsti allt í einu svo í þekkingu á röddinni, því ég var stundum ekki að skilja alveg hvað þetta var alltsaman, hvernig get ég staðið á sviði og sungið með einhverri tækni sem ég skildi varla sjálfur. Þetta varð til þess að ég fór að lesa mikið um röddina, raddbeitingu, líkamsstöðu, öndun og svo framvegis. Mér fannst ég aldrei vera margs vísari, það eru vissulega til allskonar skýringar á því hvað þetta er alltsaman, það eru til margar leiðir til að útskýra hvernig við eigum að syngja til að ná sem mestum árangri. Ég varð heillaður af því hvernig David kenndi, og fékk að njóta þess að horfa á hann kenna á hverjum degi í nokkra mánuði, 6-7 nemendum á dag, allt frá byrjendum upp í atvinnumenn, og þar lærði ég að hlusta á raddir og heyra hvað væri hægt að gera betur, og það sem meira var, ég fékk líka tólin upp í hendurnar til að aðstoða aðra við að bæta sína tækni og rödd. 

     Ég sá aldrei fyrir mér að ég myndi fara að kenna söng, þar sem ég var á fullu að reyna sjálfur að koma mér á framfæri sem söngvari.  Að loknu námi í Söngskólanum fluttist ég til þýskalands þar sem ég starfaði sem óperusöngvari í nokkur ár, fékk mikilvæga reynslu af bransanum og lífinu sem söngvari. Á meðan á þessu ævintýri stóð kynntist ég mörgum kennurum, stjórnendum og söngvurum. Við ræddum oft um söng og söngtækni, og þá varð mér ljóst hversu ólík við erum þegar kemur að skilningi á röddinni og hvernig við syngjum. Ég lennti nokkrum sinnum í því að leiðbeina fólki með söng og komst þá að því að mér var að takast ágætlega upp með að koma til skila því sem þurfti til að hjálpa þeim að bæta sig. Þetta þótti mér skrítið þar sem ég leit aldrei á sjálfan mig sem kennara. Eftir að ég fluttist aftur heim til Íslands fór ég að hafa meiri áhuga á söngkennslu, þar skapast afar gott tækifæri til að læra meira um hljóðfærið og hvernig við vinnum með það. Flóknasti þátturinn í vinnu með röddina verður alltaf einstaklingurinn sjálfur, röddin sem hljóðfæri er í raun frekar einfallt, en þar sem við getum ekki meðvitað stjórnað því, eins og við getum stórnað mörgum öðrum vöðvum líkamans, þurfum við að nota myndmál og líkingar sem framkalla ákveðin viðbrögð í líkaman sem svo skila því sem við viljum láta hljóðfærið gera. Þetta er það erfiðasta við að syngja, og líka við að kenna söng. Við erum stanslaust að berjast við okkur sjálf, afhverju virkar ekki í dag það sem virkaði í gær? o.s.frv. Það sem kemur mér á endanum mest á óvart er hversu gaman og gefandi það er að kenna, og fá að vinna með fólki, sem er oft mun hæfileikaríkara en maður sjálfur. Einnig er skrítið að sjá og upplifa þegar aðrir grípa það sem ég er að segja og beita því á mun áhrifaríkari hátt heldur en ég sjálfur hef nokkurntíma getað gert og sumt jafnvel sem ég sjálfur get ekki gert. Hvernig á það að vera hægt? Hvernig geri ég það sem ég geri? Hvernig kem ég því til skila, þegar ég sjálfur get ekki einusinni gert það? Allt þetta eru spurningar sem ég mun eyða ævinni í að reyna fá svör við. Söngur og söngkennsla verða aldrei full lærð, eins og lífið sjálft er þetta vettvangur þar sem námið tekur aldrei enda.

bottom of page